Tímaskekkjur- á bakvið tjöldin I

Tímaskekkjur

Öll lifum við og hrærumst í tímans hafi en hvað gerist þegar tíminn skekkist? Um þessar mundir stendur yfir hópfjármögnun fyrir bókina Tímaskekkjur á Karolina Fund og er áætluð útgáfa bókarinnar í maí. Verk bókarinnar raða sér við bakka tímans á svo margvíslegan og ólíkan hátt að nafnið Tímaskekkjur hentaði vel.

Bókin er gefin út af 10 ritlistarnemum og 5 ritstjórnarnemum við Háskóla Íslands í tengslum við áfanga að nafni Á þrykk. Þar læra nemendur allt sem viðkemur bókaútgáfu. Snemma í ferlinu var höfundahópnum var skipt upp á milli ritstjóra og tók Sirkústjaldið púlsinn á hverjum ritstjórnarhóp fyrir sig.

Fyrsti hópurinn sem er til umfjöllunar samanstendur af höfundunum Ásdísi Ingólfsdóttur og Birtu Þórhallsdóttur og ritstjóranum Söndru Jónsdóttir. Þær hafa allar staðist tímans tönn en eru þó á ólíkum aldri.

Ásdís, Birta og Sandra

Birta Þórhallsdóttir – Sandra Jónsdóttir – Ásdís Ingólfsdóttir

Hvers vegna völduð þið þetta nám og þetta námskeið?

Ásdís: Þegar ég sá auglýst nám í ritlist sá ég fyrir mér stökkpall, stökkpall sem gæti hjálpað mér við flugtakið út í víddina þar sem ég lifi af skrifum. Námið hefur verið ótrúlega skemmtilegt, endalaus uppspretta gleði og innblásturs. En ég stend enn á brettinu og hoppa og hoppa. Vonandi hjálpar námskeiðið Á þrykk mér við að taka stökkið.

Birta: Ég fór beint í ritlistarnámið eftir að hafa lokið myndlistarnámi í Listaháskólanum. Ég fór í skiptinám til Mexíkóborgar gegnum Listaháskólann og fór þar í teiknideildina. Í Mexíkó skrifaði ég mjög mikið um allt það sem ég var að upplifa í þessum nýja menningarheimi og dásamlegu borg og blandaði því við teikningar. Eftir að ég kom heim eftir dvölina í Mexíkó fann ég sterka þörf fyrir að halda áfram að skrifa og sótti um í ritlistinni. Ég valdi svo þennan áfanga til þess að kynnast betur þeim flókna heimi sem útgáfa bókar er.

Sandra: Ég er með BA-gráðu í almennri bókmenntafræði og þótti mér gott framhald að fara í hagnýta ritstjórn og útgáfu. Ég hef alltaf haft gaman að bókum og gegnum tíðina finnst mér ég ávallt móta skoðun á bókinni umfram innihald hennar. Allt hvað varðar útlit, hönnun á kápu, pappír og letur hefur vakið áhuga minn og fannst mér að þetta nám gæti kennt mér það sem vantaði uppá mína þekkingu á útgáfu. Svo þótti mér eðlilegt að taka áfangann Á þrykk þar sem kennt er í verki útgáfu á verki og hvað er betra en að læra útgáfu einmitt með því að gefa út verk?

Hvernig fór ritstjórnarferlið fram?

Ásdís: Eftir að við skiluðum inn textunum tóku ritstjórar við og lásu. Við hittumst svo og fórum yfir athugasemdir og í kjölfarið lagfærði ég, henti út og bætti inní. Svo var lesið aftur og ég lagfærði, enn og aftur var lesið yfir og ég betrumbætti. Þetta skilaði mun betri textum en ég setti inn í upphafi. Svo hef ég tekið þátt í hópvinnu um umbrot og útlit. Verið með í að gera kynningarmyndband og get ekki annað en dáðst að öllu því hæfileikafólki sem ég er með í þessum kúrsi.

Fyrir hvern er Tímaskekkjur?

Ásdís: Bókin er full af textum sem gott er að grípa í sér til upplyftingar eða lesa í striklotu til að gleyma sér. Þess vegna er bókin fyrir alla.

Birta: Mér sýnist á öllu að það kenni ýmissa grasa í Tímaskekkjum. Ætli bókin sé því ekki fyrir alla sem geta lesið íslenskt mál.

Sandra: Tímaskekkjur er ætluð öllum sem kunna að meta smásögur og ljóð með dularfullu og á köflum myrku ívafi. Ég mæli ekkert sérstaklega með því að lesa hana fyrir barnið þitt áður en það sofnar, en sem dægrastytting 16 ára og uppúr gæti þetta verið góður kostur.

Hvers vegna skrifið þið höfundarnir?

Ásdís: Þörfin kemur að innan, enginn veit af hverju en strax átta ára hófst ég handa við að skrifa. Þá ákvað ég að verða rithöfundur eða heilaskurðlæknir enda náskyldar greinar í eðli sínu. Eftir fimm áratuga hik er komið að því að láta verða af því að sinna skrifum og láta annað sigla.

Birta: Ég skrifa vegna þess að ég hef unun af því og veit ekki hvernig lífið væri án þess.

Um hvað skrifið þið í Tímaskekkjum?

Ásdís: Fólk og tilfinningar, lítil atvik í lífi fólks sem kallast á við stór.

Birta: Ég er að skrifa tvenns konar texta. Sá fyrri er um gamla hluti sem hafa borist frá manni til manns og hugleiðingar varðandi það og sá seinni er það sem ég kalla endurljóðblöndun um merkisfólk.

Hvað hefur tíminn kennt ykkur?

Ásdís: Hann læknar ekki öll sár.

Birta: Að á meðan þeir vitru velta vöngum lifa heimskingjarnir lífinu.

Sandra: Tíminn hefur kennt mér ýmislegt, ástvinir koma og fara, hvort sem það er í lifanda lífi eða að þeir deyi. Tíminn styrkir okkur, gerir okkur reyndari og undirbýr okkur undir það sem koma skal en það sem tíminn hefur kennt mér er að þegar raunveruleikinn opnar sig fyrir þig, gerir hann það þegar síst varir. Kannski er það ákveðin tímaskekkja að hafa upplifað missi svo stóran og nístandi að fáir jafnaldrar hafa upplifað það sama, að það sé frátekið fyrir ,,hina fullorðnu“. En klukkan heldur áfram að tifa og sá eini / sú eina sem getur stigið í takt við tímann ert þú.

 

Forvitni og reimleikar

Að lokum fáum við svo að sjá textabrot úr verkum höfundanna tveggja, Ásdísar og Birtu, í Tímaskekkjum og óskum hópnum góðs gengis með framhaldið.

Ásdís Ingólfsdóttir

Laugarvatn 1971 – Útilega

Allt í einu finnst henni eins og einhver sé að horfa á hana þar sem hún stendur. Hún svipast um og snýr sér í hálfhring. Hún horfist í augu við unga manninn sem starir á hana með opinn munn. Hann sem kannski er vinur systur hennar horfir á hana og hún finnur hvernig hún roðnar og hún veit ekki af hverju. Hún veit heldur ekki hvaða tilfinning það er sem hún finnur neðarlega í kviðarholinu. Svo tekur hún eftir að geirvörturnar þrýsta sér út í hvítan þunnan nærbolinn.

 

Birta Þórhallsdóttir

Tímavelta

Þegar rökkva tók fór ég og sótti steinolíulampann og kom honum fyrir á sófaborðinu. Eftir örskamma stund tók ég eftir því að vinur minn fór að ókyrrast. Ég spurði hvort eitthvað væri að angra hann en hann sagði að eftir að ég hefði kveikt á lampanum fyndist honum sem eitthvað óhreint væri á sveimi. Ég vissi að vinur minn var sjáandi og bað hann því að athuga hvað fylgdi lampanum.

Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone