Tímaskekkjur – á bakvið tjöldin II

Tímaskekkjur

„Tíminn er eins og vatnið,“ sagði skáldið en líklega er það fyrir hvern og einn að dæma um hvort sú fullyrðing sé sönn eður ei.

Tímaskekkjur er nýtt skáldverk sem hópur ritlistar- og ritstjórnarnema er um þessar mundir að undirbúa til útgáfu. Verkið inniheldur ljóð og smásögur eftir ritlistarnemana en ritstjórnarnemarnir ritstýrðu og slípuðu til. Hópurinn safnar fyrir útgáfunni með hópfjármögnun á Karolina Fund þar sem hægt er að fræðast meira um verkefnið.

Sirkústjaldið hefur undanfarið fengið að skyggnast bakvið tjöldin hjá hópnum og kynnir í þetta sinn til leiks tvo höfunda, Fjalar Sigurðarson og Unu Björk Kjerúlf, og ritstjórann þeirra, Ernu Guðmundsdóttur.

Fjalar, Una og Erna

Fjalar Sigurðarson, Una Björk Kjerúlf og Erna Guðmundsdóttir

 

Hvers vegna völduð þið þetta nám og þennan áfanga?

Erna: Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á bókum og bókmenntum og sérstaklega bókmenntaþýðingum. Þegar ég var að klára BA-ritgerðina mína í ensku átti ég samtal við vinkonu mína sem hafði farið í þetta nám og talaði mjög vel um það. Ég ákvað því að skoða námið betur og fannst allt sem var verið að kenna mjög áhugavert. Eitt sem heillaði mig mikið var starfsnámið sem er hluti af lokaverkefninu, en mér finnst mikilvægt að nemar fái tækifæri til að vinna við það sem þeir hafa lært og koma þannig ekki alveg jafn blautir á bak við eyrun út á vinnumarkaðinn að námi loknu.

Fjalar: Ég valdi þetta nám vegna óbilandi áhuga á sögum og einhverri knýjandi þörf til þess að segja eigin sögur.

Una: Ég valdi ritlistina því mig vantaði afsökun fyrir því að skrifa. Þrátt fyrir mikla uppsafnaða þörf til skrifta voru þær aftarlega á forgangslistanum í daglega lífinu en ég átti mikið af óskrifuðu efni í höfðinu. Mér fannst tilvalið að reyna að finna þessari þörf farveg og tíma með því að sækja um í ritlistinni og kynnast öðru fólki sem eins var ástatt fyrir.  Áfangann valdi ég því hann er bæði skapandi og praktískur.

 

Hvernig fór ritstjórnarferlið fram fyrir bókina?

Fjalar: Það litla sem ég hef kynnst ritstjórn á mínu eigin verki var að skila ritstjóra þokkalega yfirförnu verki – smásögu – og fá OK frá honum. Það náði í raun ekki lengra.

Una: Með frekar hefðbundnum hætti myndi ég segja, undir styrkri leiðsögn Sigþrúðar Gunnarsdóttur. Höfundar unnu texta sem þeir þróuðu svo og mótuðu með sínum ritstjórum. Það eina sem er óhefðbundið er að um sjálfsútgáfu hóps er að ræða og vinnsluferlið því ekki alveg það sama og ef þú ert ein að vinna með ritstjóra hjá forlagi.

 

Fyrir hvern er Tímaskekkjur?

Erna: Bókin okkar, Tímaskekkjur, inniheldur eitthvað fyrir alla, allt frá fortíðarsögum til vísindaskáldskapar; ljóð, örsögur og smásögur sem snerta við sálinni og gefa innsýn  í innstu kima sálarinnar. Í bókinni er að finna ótrúlega mikla breidd hjá þessum fersku skáldum og allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.

Fjalar:  Alla, en sérstaklega þá sem kunna ekki á klukku.

Una: Fyrir alla sem hafa upplifað tíma.

 

Hvað eruð þið höfundarnir að vinna með í textanum?

Fjalar: Ég er að vinna með tímabil, eða andartök, í ævi einstaklings.

Una: Allskonar. Það var í raun tilviljun hvað af mínu efni endaði í bókinni og textanir ekkert endilega lýsandi fyrir það sem ég hef verið að skrifa. Þetta eru allt frekar stuttir og knappir textar sem lýsa sitúasjónum og töfrum hversdagsins. Ég skrifa af líkamlegri og andlegri nauðsyn. Þetta er virkar bara eins og meltingakerfið, þú tekur inn, meltir og þarft svo að losa á endanum, hvort sem það er einhver upplifun eða tilfinning. Svo er líka nauðsynlegt að koma uppáþrengjandi karakterum út úr höfðinu. Það eru alveg takmörk fyrir því hve margir geta deilt rými í einu höfði.

 

Um hvað skrifið þið í Tímaskekkjum?

Fjalar: Þau andartök, sem oftar en ekki eru þannig að þau eru mótandi, breyta persónu, koma henni á næsta stig

Una: Lífið bara, í stóru samhengi og smáu, upplifað og uppdiktað.

 

Hvað hefur tíminn kennt ykkur?

Erna: Það er sama hvað við reynum að stjórna honum, hann verður ekki taminn. Því fyrr sem okkur tekst að sætta okkur við það því fyrr getum við fundið hamingjuna í núinu.

Fjalar: Að enginn lifir að eilífu…

Una: Sem fyrirbæri er tíminn ótrúlega áhugaverður, afstæður og óumflýjanlegur. Sama hvað við kennum tímaskorti um þá er tíminn það eina sem við eigum.

 

Augnablik, stór og smá

Að lokum fáum við að sjá brot af verkum höfundanna tveggja, Fjalars og Unu, sem birtast munu í Tímaskekkjum.

 

Vörður

-Fjalar Sigurðarson

Hann lá ofan á sænginni en ekki undir henni svo að hún myndaði ekki þyngsli ofan á honum. Honum fannst eins og hann flyti í smástund og í stað þess að horfa fram, með augun lokuð, þá var eins og sjóngeirinn víkkaði og hann horfði allt í kringum sig. Hann sá ekki heiminn heldur skynjaði hann. Hann var sannfærður um að þetta væri augnablikið.

Hann rankaði allt í einu við sér og leit á klukkuna. Hún var sjö að morgni. Hann var fullkomlega útsofinn og fann ekki fyrir nokkurri þreytu sem var með ólíkindum því hann var alltaf þreyttur á morgnana og vankaður fram eftir degi. En ekki núna. Atburðir næturinnar komu þá í hausinn á honum eins og sleggja. Hann hafði dreymt heil heljarinnar ósköp af öllu mögulegu og það maraði enn í huga hans.

 

Míkróskóp

-Una Björk Kjerúlf

Mosavöxnu kóngulóareggin á kirkjugarðsveggnum

sem aldrei klöktust út.

Dísæta bananahýðið

rotnandi á umferðareyju við BSÍ síðan í ágúst.

Óskilgreinda hnitið í Kolaportinu

þar sem harðfisklyktin og svitafýlan mætast.

Skugginn af fljótandi fiðrildinu

í heita pottinum í Vesturbæjarlauginni.

 

 

Frekari upplýsingar fyrir áhugasama:

Leyndarmál, leðja og stakur skór – Skáldverkið Tímaskekkjur

Tímaskekkjur – á bakvið tjöldin I

Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone