Tímaskekkjur – á bakvið tjöldin III

Tímaskekkjur

„Tíminn líður áfram og hann teymir mig á eftir sér,“ er kunnuglegt textabrot sem líklega flestir geta þekkja og geta samsamað sig við. Tíminn var einmitt hugleikinn nokkrum nemendum í námskeiðinu Á þrykk við Háskóla Íslands, sem vinna þessa stundina hörðum höndum að útgáfu nýs skáldverks. Verkið ber heitið Tímaskekkjur og er útgáfa væntanleg í maí.

Líkt og Sirkústjaldið hefur áður greint frá þá samanstendur nemendahópurinn af 10 ritlistarnemum og 5 nemum úr Hagnýtri ritstjórn og útgáfu og höfum við á undanförnum vikum fengið að kynnast þeim smám saman.

Að þessu sinni kynnum við til leiks höfundana Þóru Björk Þórðardóttur og Sigrúnu Elíasdóttur og ritstjórann Dýrfinnu Guðmundsdóttur.

 

Þóra Björk Þórðardóttir, Dýrfinna Guðmundsdóttir og Sigrún Elíasdóttir

Þóra Björk Þórðardóttir, Dýrfinna Guðmundsdóttir og Sigrún Elíasdóttir

Hvers vegna völduð þið þetta nám og þennan áfanga?

Þóra: Þegar ég var að klára BA-námið mitt í tónsmíðum þá byrjuðu ljóð að gerjast í hausnum á mér á kvöldin. Ég var búin að vera með ritlistina á bak við eyrað síðan stelpa með mér í jógakennaranámi nefndi það að hún ætlaði að sækja um. Þá ákvað ég að semja sögu til að endurspegla í tónum í lokaverkefninu mínu og athuga hvort ég kæmist inn.

Sigrún: Fyrir þann sem dreymir um að verða rithöfundur er þetta nám eins og himnasending, varla hægt að hugsa sér það betra. Þessi áfangi eru svona æfingabúðir í að gefa út bók frá A til Ö.

Dýrfinna: Ég valdi hagnýtu ritstjórnina vegna þess að hún hljómaði mjög spennandi og hagnýti þáttur námsins heillaði, þ.e. starfsnámið, þessi áfangi Á þrykk, og fleira.

Hafið þið reynslu af samstarfi sem þessu, milli ritstjóra og höfunda?

Þóra: Nei, ekki alveg í þessu formi. Við erum með svona ritvinakerfi í ritlistarnáminu: Rýnum texta hjá samnemendum og þeir hjá okkur, en það er ekki svona nákvæmt ferli þar sem hver einasta villa er hreinsuð fyrir umbrot og bók prentuð.

Sigrún: Já, ég hef gefið út eina bók hjá forlagi og svo nokkrar námsbækur í gegnum Námsgagnastofnun, nú Menntastofnun.

Dýrfinna: Ég hef aldrei ritstýrt skáldverki áður en þó má segja þá má segja að ég hafi reynslu af svipuðu samstarfi. Fyrir nokkrum árum ritstýrði ég nefnilega tveimur tölublöðum af Prjónablaðinu Björk sem var mjög skemmtilegt og lærdómsríkt ferli.

Hvernig fór ritstjórnarferlið fram fyrir Tímaskekkjur?

Þóra: Við vorum nokkur saman í hóp. Fyrst var okkur úthlutað nokkrum ritstjórum, svo einum og svo skiptust þeir á að lesa til þess að engar villur myndu sleppa óséðar inn í prentsmiðjuna. Sumir hafa verið að sjá um Karolina-söfnunina og að sækja um styrki, aðrir hafa haft meira með kápuhönnunina og umbrotið að gera. Ég var potturinn og pannan í gerð kynningarmyndbandsins okkar þannig að það er svona mitt helsta afrek í kúrsinum auk þess sem ég er að plögga bókina okkar á læk-síðunni okkar Tímaskekkjum sem þið skuluð endilega tékka á. Ég skipulagði einnig, ásamt fleirum, stórskemmtilegt pub-quiz sem við héldum á degi bókarinnar þann 23. apríl í Stúdentakjallaranum. Það var alveg rosalega gaman að semja spurningarnar!

Sigrún: Bara vel, sem betur fer virða flestir ritstjórar rétt höfundar til að halda í sín sérkenni ef hann sækir það fast. Það er samt aðeins öðruvísi þegar verið er að skrifa fyrir börn, þá er mikilvægt að skilningur þeirra á efninu sé í forgrunni.

Dýrfinna: Í upphafi velti hópurinn upp hugmyndum að efni sem höfundar gætu skrifað um og þegar sú hugmynd var nokkurn veginn mótuð, hófust höfundarnir handa við skrifin. Síðan lásum við ritstjórarnir yfir, fyrst í hóp, svo höfundarnir fengu athugasemdir frá fleiri en einum ritstjóra. Þegar lengra var liðið á ferlið, þá skiptu ritstjórarnir höfundunum á milli sín svo samstarfið varð nánara. Á heildina litið þá gekk samstarfið mjög vel og gagnkvæm virðing fyrir verkum höfundanna ríkti á milli okkar ritstjóranna og þeirra.

Fyrir hvern er Tímaskekkjur?

Þóra: Bókin Tímaskekkjur er fyrir alla. Þarna er tekið á svo mörgu sem tengist því að vera manneskja: Að finna til og upplifa heiminn í gegnum svo marga áhugaverða karaktera.

Sigrún: Fyrir þá sem hafa gaman af að kynna sér það sem er að gerast í grasrótinni ef svo má segja, þetta er samansafn fólks úr ólíkum áttum. Um er að ræða höfunda sem eru óþekktir nú, en hver veit hvað tíminn ber í skauti sér?

Dýrfinna: Bókin Tímaskekkjur er fyrir alla þá sem einhvern tímann hafa velt tímanum fyrir sér, fundið fyrir honum, orðið fyrir barðinu á honum, elskað hann eða hatað.

Af hverju skrifið þið höfundarnir?

Þóra: Ég er stundum að vinna eitthvað út frá eigin reynslu. Ég var svo mikið að pæla í tónlist í mörg ár og upptekin af því að skapa í gegnum hana en á meðan þá varð ég „ólétt“ af allskonar reynslu sem ég er að vinna úr núna. Ég fann að mig langaði til að tjá hana þá en átti ekki til orð. Held að ég hafi verið á of miklu kafi til þess að sjá skóginn fyrir trjánum. Nú er hins vegar búið að rofa til og ég á mjög auðvelt með skrifa, bæði út frá eigin reynslu en líka fantasera og leika mér. Það er góð blanda að mínu mati.

Sigrún: Hver og einn fékk frjálsar hendur um efnisval og form, þess vegna er allt frá stuttum ljóðum upp í langar sögur. Það kom svo í ljós þegar ritstjórarnir fóru að fara yfir efnið að þeim fannst tíminn vera eitthvað sem tengdi mikið af efninu saman.

Um hvað skrifið þið?

Þóra: Það sem þarf að komast út hverju sinni, stundum erfiða hluti en oft skemmtilega. Ég myndi segja að textarnir mínir í Tímaskekkjum séu ekki mjög myrkir, sumir eru vel gráir en aðrir í bjartari litum. Mér finnst gaman að upplifa lífið á næman hátt og miðla því í texta með leikandi hrynjandi. Ætli það sé ekki kosturinn við það að vera tilfinninganæmur, ásamt því sem þú átt frekar auðvelt með að setja þig í annarra manna spor og ganga í þeim.

Sigrún: Allt og ekkert sem okkur er hugleikið á vorönn 2016.

Hvað hefur tíminn kennt ykkur?

Þóra: Að ekkert er sjálfsagt. Þakklæti. Að reyna að nýta hvern dag og þann tíma sem okkur er gefinn. Að eyða ekki tímanum í eftirsjá heldur lifa lífinu í núinu en vinna samt að sínum markmiðum. Að njóta þess smáa og upplifa umhverfið í kringum sig. Að hvíla nokkuð vel í sjálfri mér.

Sigrún: Sennilega bara að hann týnist hratt á gervihnattaöld.

Dýrfinna: Að hann er alltaf þarna, rétt í augsýn og hæðist að hverjum þeim sem reynir að ná í skottið á honum.

Sögur og sokkabuxur

Áður en við kveðjum tríóið, fáum við að sjá textabrot úr verkum höfundanna, Þóru Bjarkar og Sigrúnar, sem prýða munu Tímaskekkjur.

Pressa

-Þóra Björk Þórðardóttir

„Hún kunni vel við þessa tilfinningu: Að vera frjáls. Ekki föst. Ekki samvaxin við fiðluna og bogann. Stundum vissi hún ekki hvar hún endaði og hvar boginn tók við. Hún var alltaf að spila á þessa fjóra strengi.“

Stundum

„Börnin voru mjög ólík og alls ekki alltaf sammála. Eins og spýtt út úr mörgum nösum, mörgum stöðum, öðrum tímum, öðrum sögum. Sögum sem voru búnar að gerast og biðu þess að gerast aftur og aftur.“

Tíu þúsund krónur

-Sigrún Elíasdóttir

Ef það er einn mánuður á ári sem hægt er að vera sokkabuxnalaus á Íslandi, þá er það í júlí. Svo er teygjan í þeim svo leiðinleg, ég þarf að fá hana dóttur mína til að kaupa stærri handa mér. Þær segja alltaf í búðinni að ég þurfi medium af því að ég er svo lágvaxin og nett. En það er tóm vitleysa, maður á alltaf að taka stærðina fyrir ofan. Annars er maður að hysja upp um sig buxurnar í tíma og ótíma því klofið er í hnésbótunum!

Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone