Töfraflautan marglaga

Kápumynd Töfrflautan

Fuglafangarinn Papageno bregður sér í hlutverk sögumanns Töfraflautunnar í Norðurljósasal Hörpu um helgina og leiðir unga gesti í gegnum ævintýraheim þessarar ástsælustu óperu Mozarts, Töfraflautan – óperusýning fyrir börn.  Sýningin er samstarf á milli þriggja aðila; Töfrahurðarinnar, Íslensku óperunnar og Hörpu tónlistarhúss. Flautuleikarinn, Pamela de Sensi stendur að samvinnufélaginu Töfrahurð, sem var stofnað árið 2009 og hefur undanfarin ár boðið upp á barnasýningar í Salnum. Töfrahurðin hefur það að markmiði að kynna klassíska tónlist fyrir börnum á þeirra eigin forsendum og oft á gagnvirkan hátt. Markmiðið er að börnin séu virkir þáttakendur í sérhverri uppfærslu og eru verkin löguð að skilningi þeirra.

Töfraflautan er sú ópera sem hefur hvað oftast verið sett á svið fyrir börn. Hún er skemmtileg og litrík þar sem persónur skara jafnvel mörk manna og dýra. Ein aðalpersóna sýningarinnar, fuglafangarinn Papageno, fer í hlutverk sögumanns og leiðir gesti í gegnum óperuna ævintýralegu.

 

Mozart verður rithöfundur

Samhliða sýningunni kemur út bók á vegum Töfrahurðarinnar, þar sem ópera Mozarts er sögð með einföldum hætti. Með henni fylgir geisladiskur með hljóðritun verksins. Textann skrifar Edda Austmann en bókin er líka skreytt fallegum myndum eftir Lindu Ólafsdóttur. Bókinni er ætlað að gera yngri lesendum kleift að leggja sjálfir af stað í ferðalag um ríki Næturdrottningarinnar. Lestur bókarinnar gæti gert leiksýningu eftirminnilegi í hugmyndaheimi barnsins. Pamela, sem er ítölsk, segir vanta tónlistarefni fyrir börn á Íslandi og fann hún sig knúna til að mæta þeirri þörf. Hún bendir á að erlendis megi finna sérstakar bókaútgáfur sem sérhæfa sig í efni fyrir börn.

 

IMG_5568

Börn eru góðir hlustendur, þau eru með gott eyra, og við þurfum að huga að skynjun þeirra og upplifun, gefa þeim möguleika á að heyra, þreifa og skynja tónlistina. Þau eru okkar framtíð. Við kennum þeim, þau eru áhorfendur framtíðar. Það er undarlegt að ekki sé meira gert af því að miðla tónlist til barna, miðað við hversu ríkt tónlistarlífið er hér á landi.

 

Kveikjan að verkefninu varð þegar Edda Austmann, sem leikur Pamínu í sýningunni, nefndi hugmyndir um samstarf við Töfrahurðina. Það tók nokkuð langan tíma að vinna þetta umfangsmikla verk. Uppfærslan, hljómdiskurinn og bókin urðu að vera tilbúin að sama tíma. Svo þurfti að huga að praktískum atriðum eins og tímasetningu með tilliti til söngvara og annarra viðburða í Hörpu og mögulegum fjölda sýninga. Undirbúningurinn hefur tekið tvö ár en nú er allt að smella saman. „Þetta var góður lærdómur um hvernig á að gera litla hugmynd stóra. Næsta stóra verkefni mun því vonandi taka skemmri tíma“, segir Pamela brosandi.

 

Það verða aðeins tvær sýningar nú um helgina sökum þess hversu flókið það getur verið að setja upp sýningu sem svo margir koma að en einnig vegna skorts á fjármagni. Þeir sem náðu sér ekki í miða í Hörpu um helgina þurfa þó ekki að örvænta, fleiri sýningar verða eftir áramót. Þangað til má njóta þess að lesa bókina með börnunum og leyfa sögunni svo að lifna við á óperutónleikum í Hörpu á nýju ári.

„Miðaverði er stillt í hóf svo sem flestir hafi tök á að fara í óperuna,“segir Pamela að lokum.

 

 

Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone