Typpaklaufar í barnabókmenntum

12214907644_309e60d052_o

Ég er að hugsa um leggingsbuxur. Munstraðar, mjúkar og litríkar buxur í stærðum 80 til 104. Ég er að hugsa um leggings og lestur barnabóka. Og tengslin þar á milli.

Fyrir nokkru var ég stödd í ónefndri barnafataverslun á höfuðborgarsvæðinu, þar sem ég fylgdist með starfsfólki raða litríkum leggingsbuxum á snaga á vegg kirfilega merktum STELPUM. Sem áhugamanneskja um tilhneigingu samfélagsins að aðgreina kynin frá fæðingu gat ég ekki á mér setið. „Þið ættuð að setja nokkrar svona buxur á strákavegginn líka, þær eru svo skemmtilegar á litinn,“ laumaði ég út úr mér og blikkaði verslunarkonuna. „Nei, við erum með svo fínar gammósíur fyrir strákana!“ gall glaðlega í henni.

Jú, takk, eldri sonur minn á einmitt svoleiðis. Og þær eru vissulega ágætar; dökkbláar bómullargammósíur með hvítum saumum – og typpaklauf. Lokaðri, reyndar, enda hafa tveggja ára bleyjubörn frekar takmarkaða þörf fyrir typpaklauf. Leggingsbuxurnar voru hins vegar ekki bara til dökkbláar, heldur í ýmsum litum og mynstrum. En þær voru auðvitað bara ætlaðar stelpum.

Að lesa sér til samkenndar

Kannanir hafa sýnt að læsi barna fer hrakandi. Alþjóðlega Pisa-könnunin frá árinu 2012 sýndi til dæmis að tæpur fjórðungur 15 ára drengja á Íslandi teldist ekki geta lesið sér til gagns, en hið sama átti við 9% prósent stúlkna á sama aldri. Það eru sláandi tölur, en aldeilis ekki í fyrsta skipti sem kynjamunsins verður vart. Í könnunum sem mæla læsi barna koma drengir sífellt verr út en stúlkur.

Að geta lesið sér til gagns, til að ganga vel í námi og starfi, er þó ekki það eina sem börn græða af lestri. Hann örvar ekki bara málþroska, heldur líka tilfinningaþroska. Að lesa er að læra að samsama sig sögupersónum af ólíkum kynjum, kynþáttum, jafnvel dýrategundum. Og í samtíma okkar, klámvæddum hríðskotabyssuheimi þar sem útlendingaandúð og hræðslan við hið óþekkta ólgar rétt undir yfirborðinu, er samkenndin kannski það allra mikilvægasta sem við getum þroskað með okkur og börnunum okkar.

Rannsóknir sýna að þegar drengir lesa velja þeir sér heldur lesefni með söguhetju af karlkyni en kvenkyni. Rannsóknir hafa líka sýnt fram á að drengir finni síður til samkenndar með kvenkyns söguhetjum, en þeim sem eru af karlkyni. Stelpurnar virðast hins vegar betur færar um að tengjast söguhetjum af báðum kynjum.

Þegar ógnvænlegar tölur um læsi drengja ber á góma er ekki skrýtið að fólki bregði við. Viðbrögðin eru oftar en ekki að reyna að finna út hvaða bækur sé mögulega hægt að tæla stráka til að lesa – hvaða bækur séu nægilega strákalegar til að vekja áhuga þeirra og fæla þá ekki frá. Hér fer að kvikna á spurningarmerkjum í mínu höfði, gamalt neonskilti suðar í gang. Ef kyn er forsenda þess að strákar tengi við söguhetjur ætti að vera af nægu lesefni að taka. Í gegnum bókmenntasöguna eru langtum fleiri söguhetjur karlkyns en kvenkyns.

Kannski er það svo það séu líffræðilegar ástæður fyrir því að hæfileikinn til samkenndar þroskist seinna hjá drengjum en stúlkum. Ég vil meina að það sé þó ýmislegt hægt að gera til að hjálpa börnum að þroska með sér þennan mikilvæga hæfileika, þessa undirstöðu mennskunnar. Og þá ekki síst í gegnum lestur.

 Orð eru álög

Í nýlegum pistli  í Kjarnanum skrifaði Bragi Páll Sigurðarson um hugmyndir sínar um föðurhlutverkið, að ala upp litla stelpu í kvenfjandsamlegu samfélagi. Pistillinn var frábær. Ég hef því einu við hann að bæta að foreldrar drengja mættu skrifa sama pistil af sömu ástríðu.

Ég hef grun um að foreldrar stúlkna, eins og Bragi Páll, séu margir mjög meðvitaðir um það ábyrgðarmikla hlutverk sem þeim er falið í ójöfnu samfélagi. Að þeir leggi sig af öllu hjarta fram við að styrkja stelpurnar sínar, kenna þeim að þær geti og mega vera hvað sem er. Leggi sig fram við að finna bækur um sniðugar og sterkar og klárar stelpur. Ég vil hvetja foreldra drengja til að gera slíkt hið sama. Svo ég fái orð Braga Páls að láni: „Orð eru álög, og með þeim sköpum við upplifun, barnanna og okkar.“

Ég held að það sé ekki síður mikilvægt að innræta drengjunum okkar þetta. Með orðum. Og hvar er aðgengi okkar að orðum, álagaorðum, betra en í bókum? Á mínu heimili trónir Lína langsokkur á toppnum í sístækkandi lesstaflanum, undir henni grillir í Emmu-bækurnar og Ronja bíður þess spennt að komast á dagskrá. Og við foreldrarnir látum ekki staðar numið þar.

1471281Fyrstu æviárin, þar til börnin rífa bækurnar úr höndunum á okkur og taka sjálf við yndislestri (ef góðar vættir lofa), höfum við stjórnina, söguskýringin er í okkar höndum. Í lestri á okkar heimili, fyrir ríflega tveggja ára dreng, er ýmsu hagrætt með endurbætta söguskoðun að leiðarljósi. Uppáhaldsbókin síðasta hálfa árið, að öðrum ólöstuðum, er stórvirkið Kalli og Kata fara í búðir eftir Margret Rettich. Bókin var keypt á kílóverði í gamalli bókabúð á Flateyri, aðallega vegna fallegra myndskreytinga. Kalli og Kata voru sköpuð af Rettich árið 1973 og í takt við tímann er það mamma sem skipuleggur matarinnkaupin og sækir fötin í efnalaugina á meðan pabbi setur bensín á bílinn og splæsir pulsu á krakkana að útréttingum loknum. Í okkar útgáfu er ástæðan fyrir því að pabbi stendur við bílinn á bensínstöðinni sú að hann var alveg í spreng og skrapp að pissa á meðan mamma dældi. Og það var pabbi sem skrifaði innkaupalistann fyrir mömmu, því hún er stundum svo utan við sig að hún man ekki hvað vantar heima. Okkar maður er alveg samþykkur þessari útgáfu og bendir sjálfur á pabbann sem var svo mál að pissa og mömmu sem man ekki neitt.

Hlutverk upplesarans er gríðarstórt þessi fyrstu ár í bókaheimum. Börn eru í óðaönn að flokka veruleika sinn, gefa honum nafn og draga í dilka. Það er eðlilegt. Það er ekkert að því að hrista upp í storknuðum gömlum hugmyndum um kynin og hlutverk þeirra en að hugsa sig tvisvar og þrisvar um áður en bækur á borð við Tíu litla negrastráka eru endurútgefnar. (Í því samhengi hefði verið til bóta að hugsa sig fjórum sinnum um.) Upplesarar geta gætt þess að velja bækur um stráka og stelpur til jafns. Og ef það er komin gamaldags fúkkalykt af kvenkyns söguhetjunum má vel glæða þær áræðninni og prakkaraskapnum sem upp á vantar. Að sama skapi má ljá stereótýpískum ærslastrákum blíðu og viðkvæmni, ef hana skortir. Kannski er leynispæjarinn hræddur við köngulær. Kannski er hann þreyttur eftir ævintýraleiðangurinn og langar að fá knús frá pabba eða mömmu. Við speglum okkur í bókmenntum, eins og annarri list. Með því að veita stráknum mínum tækifæri til að spegla sig í alls kyns söghetjum, bæði strákum og stelpum, vonast ég til að geta hjálpað honum á þeim langa vegi tilfinningaþroska sem hann á fyrir höndum. Og vonandi alið upp með honum ást á lestri.

Læknirinn og hinn pabbinn

Í mínum barndómi var sögð gáta um fjölskyldu. Faðir og sonur lenda í bílslysi. Faðirinn deyr og sonurinn er fluttur stórslasaður á spítala þar sem læknir tekur á móti honum. Læknirinn segir: ég get ekki gert aðgerð á honum, hann er sonur minn.

Þegar mín kynslóð glímdi við þessa gátu fyrir aldarfjórðungi síðan var það virkileg glíma. Hvernig gat þetta verið? Krakkar í dag hafa svörin, í fleirtölu, á reiðum höndum. Augljóslega er læknirinn annað hvort mamma drengsins eða hinn pabbinn. Tímarnir breytast nefnilega og krakkarnir með. Það er okkar upplesarana að fara varlega með merkimiðana á veruleikann, lesa ekki bara um stráka fyrir stráka og frakkar stelpur fyrir stelpur. Að vera vakandi fyrir tækifærum til að bæta úr gömlum flokkunum sem eru rykfallnar og klepraðar og eiga ekki erindi við okkur í dag. Það er okkar að gefa börnunum okkar tækifæri til að spegla sig í söguhetjum af báðum kynjum. Og gera ekki greinarmun á mynstruðum leggingsbuxum og gammósíum með lokaðri typpaklauf.

 

Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone