Ummyndun Laurence

LAURENCE-ANYWAYS

Laurence hvernig sem er, eða Laurence Anyways eins og hún heitir á frummálinu, er frönsk-kanadísk kvikmynd frá árinu 2012. Leikstjóri og handritshöfundur myndarinnar er Xavier Dolan og titilhlutverkið er í höndum Melvil Poupaud. Myndin gerist á tíu árum í lífi frönskukennarans Laurence, frá 1989 til 1999. Í upphafi myndarinnar ákveður Laurence að að hann vilji leiðrétta kyn sitt og lifa sem kona. Það hefur afdrifaríkar afleiðingar í för með sér fyrir starfsferil hans og einkalíf, ekki síst í samskiptum við kærustuna, Frédérique, sem er leikin af Suzanne Clément.

Kærastan gengur undir karlkyns gælunafninu Fred og Laurence heldur nafni sínu óbreyttu eftir að hann kemur út sem transkona, því á frönsku er það líka kvenmannsnafn. Margir eiga þó erfitt með samþykkja Laurence sem konu og ávarpa hann áfram í karlkyni. Í nöfnum beggja aðalpersónanna birtist þannig útúrsnúningur á stöðluðum hugmyndum um kyn og kyngervi sem er eitt meginumfjöllunarefni myndarinnar. Við notum í eftirfarandi spjalli oft persónufornafnið hann um Laurence, í staðinn fyrir hana sem væri réttari, en það verður látið standa óbreytt.

Laurence Anyways er sýnd á franskri kvikmyndahátíð sem stendur yfir í Háskólabíói og Borgarbíó á Akureyri fram að 2. febrúar. Ég fór ásamt vinkonu minni, Guðlaugu Míu, á myndina á dögunum og við ræddum síðan saman um verkið.

Fagurfræði og raunsæi

EE: Mér fannst myndin frábær. Sérstaklega miðað við hvernig svipurinn á okkur var þegar við fréttum að hún væri þriggja tíma löng! Þetta hefði alveg eins getað endað í einhverjum óskaplegum leiðindum.

GM: Já, takk fyrir að bjóða mér í bíó! Þetta var mjög flott mynd og rosalega vel leikin, ekki síst voru mamma hans og kærastan sannfærandi í sínum hlutverkum. Mér fannst líka svo áberandi hvað allir þróuðust rosalega vel á þessu 10 ára tímabili. Nema hvað það truflaði mig að fataskápurinn hans festist í eitísinu, það var frekar skrýtið. Það var komið fram að aldamótum í lokin og hann er ennþá í einhverjum silkiblússum og með klút!

EE: Það var í rauninni það eina sem fór í taugarnar á mér í myndinni, fagurfræðin. Þessi eitís, snemm-næntís fagurfræði vildi engan enda taka. Mér fannst það skemmtilegt til að byrja með en fékk svo alveg nóg af því. Þetta var svo yfirþyrmandi! Eins og þessir blessuðu neon-augnskuggar, sem sáust svo vel í öllum nærmyndunum.

GM: Mér fannst það reyndar skemmtilegt og það er líka einmitt svo í tísku núna. Ég var að spá í því hvort leikstjórinn hafi hugsanlega valið þennan áratug sem leiksvið myndarinnar út af því að margt sem einkenndi hann er aftur komið í tísku í dag. Svo voru mörg atriði sem voru draumkenndari, bæði upphafsatriðið og annað þar sem föt fara að rigna af himnum, þar minntu myndatakan og klippingarnar helst á tónlistarmyndbönd.

EE: Já, það var margt inn á milli sem varð tónlistarmyndbandalegt. Eins og þegar þau tvö fara saman á klúbb í byrjun myndarinnar, það var alveg eins og að horfa á eitís MTV. En ég er mjög ánægð með myndina í heild sinni, hún er ótrúlega vel gerð. Sér í lagi vegna þess hvað hún var raunsæ, ég keypti þetta bara algerlega.

GM: Ekkert smá! Mér fannst eiginlega Fred, kærastan hans, vera langt best. Þetta virtist í raun allt vera aðeins of auðvelt fyrir Laurence, sem var furðulegt því það kom líka fram að hann væri ekkert neitt brjálæðislega sterkur persónuleiki og þurfti mikið á stuðningi annarra eins og fjölskyldu sinnar að halda í þessu ferli. Maður sá kærustuna oft brotna niður en Laurence gerði það mun sjaldnar. Samt virtist hann ekkert vera það lokaður persónuleiki. Það var áhugavert að sjá þennan mun á þeirra viðbrögðum.

EE: Það gæti í rauninni skýrst af því að þetta var ekki svona mikið áfall fyrir Laurence eins og hana, hann vissi alltaf að hann væri í röngum líkama. Mamma hans virtist líka ekkert hissa á þessu, þó hún væri ekkert glöð heldur. Hún sagði að hann hafi alltaf verið að klæða sig í kvenmannsföt sem lítið barn. Það hefði í raun verið áhugavert að fá að skyggnast betur inn í hugarheim hans, sér í lagi á árunum sem gengu á undan umbreytingunni og þeirri ákvörðun hans að koma út sem trans. Það er reyndar örugglega erfitt að koma því til skila í svona bíómynd.

GM: En hver var svo að tala yfir? Var það ekki konan sem var að taka viðtal við Laurence árið 1999? Með því að láta brot úr þessu viðtali um hvað hafi legið að baki ákvörðun hans spila yfir atriði sem gerast miklu fyrr var verið að veita smá innsýn inn í hans hugarheim. Það varð svona endurlit í því.

Kynslóðir mætast 

EE: Mér fannst fyndið að sjá í dómi á IMDB áður en ég sá myndina hvað hún var harkalega gagnrýnd fyrir að vera „allt of löng leiðinleg mynd með yfirdrifið langar senur af frökkum að reykja og tala“, eða eitthvað í þá áttina. Það voru alveg tímapunktar þar sem mér fannst hún langdregin, en maður var samtímis farin að lifa sig svo inn i örlög persónanna, ég var svo spennt að sjá hvað mundi gerast.

GM: Já, það var svo ótrúlega flott hvað það var farið yfir breitt tímasvið, leikararnir gátu alveg fylgt því og skilað þroska manneskjunnar sem þau voru að leika. Frústrasjón kærustunnar, Fred, yfir að vera föst í þessu sambandi og hvernig hún tekst á við það. Líka hvernig maður sá mömmu hans breytast er árin liðu, þegar hún var búin að skilja og farin að opna sig meira gagnvart honum.

EE: Já, þessi mamma var ótrúlega sterkur karakter, ég hélt mikið upp á hana. Hún var svo opin með það hvað samskiptin í fjölskyldunni þeirra voru algerlega ónýt. Þessi leikstjóri var líka að gera nýja mynd núna á síðasta ári, Mommy, sem fékk dómnefndarverðlaunin á Cannes. Hann er víst voða fastur eitthvað í þessum mæðginasamskiptum. Önnur mynd eftir hann sem var sýnd RIFF fyrir nokkrum árum hét þar að auki I Killed My Mother [2009].

GM: Já, alveg rétt. Ég man eftir henni. En á móti raunsæinu koma þessi draumkenndu atriði sem við ræddum áðan. Allt í einu gusast vatn inn í herbergi eða fiðrildi flýgur út um munninn á Laurence, svo ekki sé talað um þessi föt sem rigna niður. Ég fór mjög mikið að spá þá í þessari tísku, hvað það er núna mikið afturhvarf til eitís og næntís tískunnar, og hvort þessi leikstjóri sé voða mikill „fasjón“ gaur. Hann hefur týnt til áhrif frá tónlistarmyndböndum og frá þessum tiltekna áratugi sem gerir allt svo svakalega poppað. Það stangast pínu á við söguna sjálfa sem er rosalega alvarleg.

EE: Þetta tímabil sem myndin gerist á gæti líka tengst ákveðinni kynslóð. Kærasta Laurence segir á einum stað að þeirra kynslóð ætti nú alveg að geta tekist á við svona, og átti þar við kynleiðréttinguna. Ég túlkaði það þannig að þau séu börn hippakynslóðarinnar sem hafði rutt brautina í þessum efnum, réttindabaráttu kvenna og samkynhneigðra til dæmis, sem leiðir til þess að samfélagið sé að breytast hvað varðar viðhorf til kyngervis og kynferðis. En á sama tíma virðist mér þessi tími frá um 1980 líka fela í sér mikið afturhvarf til hefðbundinna gilda og tísku sem einkennist af macho körlum og uppstríluðum konum. Þessi þroskasaga og umskiptaferli Laurence er þá í mótvægi við það sem er að gerast á þessum tíma og hann verður enn meira á skjön við umhverfi sitt.  Á öðrum tíma hefðu samfélagslegu viðbrögðin og viðhorfin hugsanlega orðið allt önnur.

Niðurstaða:

Það varð ljóst af áframhaldandi samræðum okkar að það væri hægt að velta fyrir sér ýmsum smáatriðum og persónum í myndinni, sem þó er óþarfi að lýsa um of fyrir þeim ætla sér að sjá myndina. Þó að einstaka atriði hafa farið í taugarnar á okkur vakti myndin upp margar spurningar. Við vorum báðar afar sáttar þegar leiðir skildust í vetrarnóttinni og mælum hiklaust með að aðrir noti tækifærið til að sjá þessa áhrifaríku mynd.

 

Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone