Warehouse9 – kynusli og list í Kaupmannahöfn

gj-5176

Nína Hjálmarsdóttir er sviðshöfundanemi við Listaháskóla Íslands. Um þessar mundir er hún í starfsnámi hjá tilraunarými Hotel Pro Forma, sem er alþjóðlegur og þverfaglegur leik- og gjörningahópur í Kaupmannahöfn. Hér fjallar hún um upplifun sína á Alþjóðlegri Gjörningalistahátíð dagana 26-28 febrúar.

Vöruhús9 eða Warehouse9 er gjörninga- og margmiðlunarrými, staðsett í hinu fjölbreytta Kødbyen-hverfi á Vesterbro í Kaupmannahöfn. Markmið Warehouse9 er að kanna mörkin milli myndlistar, ljóðlistar, tónlistar, gjörningalistar og næturlífs í beinni tengingu við alþjóðlegt samfélag LGBTQIA (ensk skammstöfun sem stendur fyrir: lesbian, gay, bisexual, transgender, questioning, intersex og asexual). Aðstandendur rýmisins leitast við að setja á svið verk sem ná að vera listræn og pólitísk í senn og beina athyglinni að málum tengdum kyngervi og birtingarmyndum líkamans.

Jørgen Callesen er listrænn stjórnandi Warehouse9. Samkvæmt honum er mikill munur að vinna í sjálfskipulögðu listarými sem venjulega einkennist af ófyrirsjáanleika, eða hjá rótföstum stofnunum sem hafa skilgreinda dagskrá. „Sterk sjálfstæð listrými eiga að breytast hratt og þau geta verið sett upp hvar sem er. En þegar meginstraumurinn og stofnunin kemur á sama stað, þá eru þau löngu komin eitthvert annað,” segir Jørgen í viðtali við Kunsten Nu.

Hann bætir við að í rýmum eins og Warehouse9 er hlutverk hvers og eins ekki meitlað í stein. „Maður getur jafnt verið sýningarstjóri, listamaður og neglt saman sviðsmyndina. Orkan er mjög sérstök, sem ég held að hafi mikil áhrif á sköpunarferlið hjá listamanninum. Orka sem stofnun gæti aldrei fangað. Það er rými til að tálga lögmálin, brjóta reglurnar og stundum skapar þú eitthvað allt annað en þú lagðir upp með,” segir Jørgen og bætir svo við: „Frjálsa rýmið er aftur á móti mjög viðkvæmt og þarf sífellt að berjast fyrir athygli. Það getur riðlast hvenær sem er, án þess að nokkuð verði eftir nema e.t.v. minningin.“

Warehouse9 stendur fyrir ýmiskonar gjörningahátíðum og á dögunum brá ég mér á eina slíka. Alþjóðlega Gjörningalistahátíðin (International Performance Art Festival) var haldin í samvinnu við Kaprow Collective sem er dönsk hinsegin/femínísk hreyfing. Andrúmsloftið var afslappað og persónulegt. Hátíðin er lítil en í ár voru á dagskránni þrír listhópar með nokkrar ólíkar sýningar. Að auki þeirra sem ég mun fjalla hér meira um má nefna Ground Floor Group, kvennadúett sem blandar saman dansi, dragi, tónleikum við pólitísk skilaboð um samkynhneigð. Til viðbótar var boðið upp á fyrirlestra, samtöl áhorfenda við listamennina, lokapartý og Queer Art Lounge (Hinsegin Listastofu)– samkomustað fyrir áhorfendur til að ræða viðburði hátíðarinnar.

Rýmið var skreytt glansandi strimlum og glimmeri, og hátíðargestir- og starfsmenn ekki síður fallega klædd og vinaleg. Ég heillaðist af Warehouse9-hópnum og sá í fyrsta sinn hlið gjörningalistar sem ég hef hingað til aðeins lesið um í skólabókum: gróteskuna. Að horfa á fólk pynta sjálft sig, afhjúpa innstu leyndarmál og opinbera líkamsparta sem venjulega er tabú að sýna var á sama tíma sjokkerandi og frelsandi. Á boðstólum voru listaverk sem einbeittu sér að því að vera einföld og kjörnuð, með líkamann sem útgangspunkt.

Fags, ravers, queers, bears, babes, dreamers, lollipops, fairies, sailors, queens, studs, feminists, otters, boi’s, dykes, daddies, rubber lovers, twinks, unicorns, lovers, and the rest of you THIS IS YOUR PARTY!

„The Honey Queen“ eftir Gertjan Franciscus van Gennip

Leikendur: Gertjan Franciscus, Martina Gabrielli og Maria Metsalu
Tónlistarflutningur: LVM (Danilo Colonna)

Þrjár naktar manneskjur í hvítum leðursófa. Óteljandi lítrar af olíu og hunangi og fullklæddur gothari með DJ-græjur. Þessi sýning smaug djúpt inn í undirmeðvitundina og næturdraumar mínir verða aldrei samir eftir hana. Gertjan Franciscus er hollenskur gjörningalistamaður sem fékk hugmyndina að verkinu út frá kenningunni sem segir að ef býflugur myndu hverfa af jörðinni myndi mannkynið deyja út á fjórum árum.

Á sviðinu er kynlaus vera sem ekki er hægt að greina með vissu hvort sé manneskja eða dýr. Hún er býflugnadrottningin umvafin þernum sínum sem tilbiðja hana og hræðast. Texti verksins er spádómur fluttur í ljóði, við erum stödd í íverustað drottningarinnar, í miðri helgiathöfn. Með hjálp helgisiðarins, tónlistarinnar, dansins, frelsisins og nektarinnar á sér stað ákall um sammannlega vitund. Í svona aðstæðum má allt og á hápunkti leiksins á sér stað fæðing gulleggsins úr líkama drottningarinnar – verknaður sem annars staðar væri talinn viðbjóðslegur verður hér fagur. Í svona aðstæðum býður listamaðurinn okkur að gleyma því í örskamma stund hvaða fólk við erum út á við. Mörkin milli hans og okkar eru afmáð sem undirstrikar að í ákveðnum skilningi er hann við, og við erum hann.

The Honey Queen 1

Verkið er þó ekki háalvarleg ádeila, ég hló út í gegn, þó svo að það sé aldrei alveg ljóst hvort sumt eigi að vera fyndið eður ei. Það er afar sterk kynferðisleg orka í rýminu, hún er áþreifanleg og jaðrar við andlega fullnægingu allra á staðnum. Á sama tíma er hægt að finna fyrir andstæðunni, að verkinu sé alls ekki ætlað að vera kynferðislegt. Heldur er nektin svo eðlileg og ókynferðisleg að þau gætu allt eins verið í fötum. Mér þykir merkilegt þegar verk er fullt af vísunum sem vekja upp spurningar eins og; „Af hverju finnst mér skrítið að þau séu nakin? Af hverju er það kynferðislegt, eða ekki kynferðislegt?“

Ég sat þarna með gapandi munninn og horfði á þessar verur sem dáleiddu mig með nekt sinni og sjálfsöryggi. Eftir sýninguna gekk ég eins og í leiðslu upp að þernunum, eins og ástsjúkur hvolpur, í þeirri von um að fá að vera vinur þeirra. En þegar ég loks fékk tækifærið gat ég ekki stamað öðru en „Takk fyrir mig“.

Nýleg bylting á Íslandi í þágu frelsunar líkamans í hinu opinbera rými má segja að hafi litað upplifun mína á Býflugnadrottningunni og hátíðinni, eftir á að hyggja. Þá get ég líka nefnt umræður tengdar hinsegin fræðslu í grunnskólum og alþjóðlegri baráttu fyrir viðhorfum gagnvart transmanneskjum. Ég velti því fyrir mér hvers vegna við höfum gert nekt og kynhneigð að einhverju sem ekki má sjást, og hvort félagslegi ávinningurinn af því sé minni eða meiri? Með nektina, þá met ég það svo að fólk ætti að hafa frelsi til þess að vera nakið eða ekki nakið að vild, en ekki stjórnast af félagslega viðteknum viðhorfum. Ef nekt væri spurning um frelsi og eignarhald hvers og eins yfir eigin líkama, væri hægt að eyða óttanum við að aðrir túlki nektina með kynferðislegum hætti.

 Mischa Badasyan

„Agora“, „Lovers“ og „Respekt“ eftir Mischa Badasyan

Mischa Badasyan er ættaður frá Rússlandi en er búsettur í Berlín. Hann var fjórtán ára þegar hann gerðist aðgerðarsinni en það starf þróaðist síðarmeira út í listsköpun. Það sem einkennir gjörninga hans er að hann sjálfur er listaverkið og gjörningarnir geta staðið yfir í marga mánuði. Síðustu ár hefur hann tekist á við birtingarmyndir líkamans í tengingu við LGBTQIA-samfélagið, einmanaleika og ástarþrá.

Mischa hefur m.a. staðið nakinn í anddyri í Prag og boðið áhorfendum að raka líkamshár sín og komið sér fyrir á ólíklegustu stöðum og boðið vegfarendum að horfa á klám með sér. Nýlega vakti Mischa mikla athygli fjölmiðla þegar hann tilkynnti nýjasta rannsóknarefnið sitt: á hverjum degi í heilt ár ætlar hann sofa hjá nýrri manneskju, með hjálp samfélagsmiðla eins og Grindr, Gaydar og GayRomeo.

Með því verki, sem nefnist Save the Date, vill Mischa kanna tengingu milli „húkköpp“-menningar, hnattræns einmanaleika og hugmyndarinnar um „ekki-staði“ (e. non-places) sem er hugtak úr verkum franska mannfræðingsins Marc Augé. Samkvæmt Mischa eru stórborgir ekki-staðir, þar sem íbúar þeirra hreyfast hraðar og hraðar í gegnum í tíma, rými og og eigin sjálfsvitundir. Á endanum verðum við að viðurkenna að við erum orðin óvirk vitni að eigin lífi, lífi sem hefur upp á allt að bjóða en sem við gerum ekkert með. Í ekki-stöðum þarf ekki að ákveða neitt, tala við neinn eða eiga sér samastað. Save the Date er tilraun Mischa til að breyta rými í stað og einmannaleika í tengsl gegnum tjáningu og leit í tilveru. Verkið verður að stærðarinnar ekki-stað einsemdarinnar.

Hann bendir á að samkynhneigð hefur ávallt verið stimpluð sem kynferðislegur annarleiki (e. otherness) og þess vegna hafa samkynhneigðir verið þvingaðir til að leita að tilfinningalegri nánd annarsstaðar – á ekki-stöðum samfélagsins.

Mischa virðist við fyrstu sýn vera mjög feiminn og ástríkur. Það er væntanlega mjög erfitt fyrir hann að ferðast á nýja staði þar sem hann þarf að treysta á að geta sofið hjá nýrri manneskju á hverjum degi. Opinn persónuleiki hans heillaði mig og það er töfrandi en átakanlegt í senn að heyra manneskju lýsa því yfir í listamannaspjalli við fjölda fólks að hann hafi aldrei verið ástfanginn.

Með því að hitta ókunnuga menn til að sofa hjá, í rýmum eins og almenningsgörðum, rannsakar Mischa hvað gerist þegar kynlíf á sér stað á ekki-stað. Getur manneskjan orðið álíka formlaus og rýmið? Hann segir sjálfur í viðtali við Arts.Mic: „Á endanum verð ég að ekki-stað, og stefnumót mín eins og að fara í matvörubúð”.

Gjörningurinn sjálfur á sér stað án áhorfenda. Til þess að miðla verkinu til annarra endurskapar Mischa gjörninga sem endurspegla upplifanir hans af Save the Date. Þrír þeirra, Agora, Lovers og Respekt, voru sýndir á hátíðinni. Gjörningarnir áttu það sameiginlegt að vera mínimalískir, tilfinningafullir og erfiðir áhorfs. Í einum þeirra gaf Mischa áhorfendum spegla til þess að geta dáðst að sjálfum sér í, og um leið brjóta niður hin hefðbundnu mörk sviðs og sætispalla. Í öðrum gjörningi sló Mischa sig hratt og fast í andlitið í 45 mínútur, eins og hann væri að reyna að losa um einhverjar hömlur með því að meiða sjálfan sig líkamlega. Mögulega var ætlunarverk hans að bjóða áhorfendum að lifa okkur inn í sársauka hans, og tel ég honum hafa tekist að vekja upp sameiginlegar tilfinningar hjá viðstöddum.

Mischa Badasyan2

Hugmyndir okkar um skilgreiningar og flokkanir í hópa kynja, kyngervis og kynhneigða eru úreltar, það er staðreynd. Síðustu ár hefur verið aukin umræða um þessi mál, og því er ekki skrítið að listamenn séu að gagnrýna núverandi samfélagsgerð í gegnum sköpun sína í auknum mæli. Á Íslandi hef ég ekki orðið vör við vettvang á borð við Warehouse9, en listræn umræða á þessu sviði tel ég vera alveg jafn mikilvæga á Íslandi og í hvaða landi sem er.

Ég vona að það muni skapast greiðari farvegur fyrir ýmiskonar liststefnur, gjörningalist og aðrar, til að blómstra. Þar skiptir stuðningur hins opinbera sköpum, að ríkið sjái sér fært um að veita minni og tilraunakenndari hópum styrki, eins og reyndin virðist vera í öðrum Evrópuríkjum á borð við Danmörku. Að mínu mati hefur Ísland, þrátt fyrir smæð sína, möguleika á því að vera á sama stalli og aðrar Evrópuþjóðir þegar það kemur að ríkistyrkjum til lista, og að skapa aðstæður þar sem sú list getur náð til fjöldans og komist nær þeim markmiðum sem hún endurspeglar.

Samfélagið sem hátíðin er byggð í kringum í Kaupmannahöfn, er mjög lítið. Að auki má nefna Husets Teater sem er frekar leikhús en gjörningarými, gott dæmi er núverandi sýning þeirra The Einstein of Sex sem fjallar um Magnus Hirschfeld brautryðjenda í baráttumálum hinseginfræða. Hátíðir af þessum toga eiga oft mjög erfitt uppdráttar, og fór Warehouse9-fólkið ekki leynt með að smæð hátíðarinnar var vegna þess að þau fengu ekki þann styrk sem þeim var lofað, og gátu ekki sýnt nærri því öll verkin sem þau höfðu ætlað sér. Það er ómetanlegt, sérstaklega fyrir fólk sem hefur áhuga á list tengdri kyngervi og líkamstjáningu, að hafa svona vettvanga til listmiðlunar og umræðna. Ég upplifði Warehouse9 og hátíðina sem frekar lokaðan heim inn í stærri heim borgarinnar. Margir kollegar mínir í leikhúslífi borgarinnar höfðu ekki farið á viðburði Warehouse9 eða jafnvel ekki heyrt þeirra getið.

Um leið er ég meðvituð um að leikhús Warehouse9, sem einbeitir sér að kynjamálum, er hluti af miklu stærri samfélagi sem er að takast á við þessi mál og skapa list um allan heim. Auðvitað er það oft þannig með listrænar hreyfingar á tilteknum stöðum að þær hafa sinn ákveðna hóp sem mætir á viðburði, og hafa kannski ekki eins mikil áhrif á samfélagið í heild sinni og hreyfingin myndi óska. Leikhúslíf á Íslandi þá engin undantekning.

unnamed2

Því velti ég því fyrir mér hvort að hin virka umræða, sem á sér stað innan þessa tiltekna listaumhverfis, sé að hafa þau áhrif út á við sem að verk hátíðarinnar voru að kalla á. Þessi spurning leiðir síðan ósjálfrátt yfir í meiri vangaveltur: Getur listin umbreytt samfélaginu sem hún er að gagnrýna? Ég hef auðvitað ekkert endanlegt svar við þessu, nema kannski trúin sem ég og fleiri listamenn höldum fram: ef við getum haft áhrif á eina manneskju, var verkið þess virði. Ef það er svarið, þá tel ég að markmiðinu hafi verið náð á þessari hátíð því að fyrir mér opnaðist ný hlið á leikhúsinu og gjörningalistinni og ég fékk einstaka innsýn inn í sálarlíf og hugmyndir listamannanna með því að sjá verk þeirra og ræða við þau.

En þegar ég hugsa í stærra samhengi verður mér ljóst að list hefur alltaf getið af sér brautryðjendur sem eru að skapa eitthvað í mótsögn við samfélagið, koma fram með hugmyndir sem stinga á kýli og gefa öðrum innblástur til að halda baráttunni áfram. Á endanum hefur þetta áhrif og endurspeglar breytingar á viðhorfum samfélagsins. Það er því of einfaldlega litið á að spyrja sig hvort að Warehouse9 sé að hafa áhrif á samfélagið sem það er hluti af, því að áhrifin koma kannski ekki ljós fyrr en eftir ár, eða tíu ár eða eftir áratugi.

Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone