Yahya Hassan: „Haldið kjafti, svona upplifi ég þetta“

Mynd: Mogens Engelund
Mynd: Mogens Engelund

Fullt var út úr dyrum á höfundakvöldi í Norræna húsinu miðvikudaginn 5. nóvember þar sem danska skáldið Yahya Hassan las upp úr ljóðabók sinni og svaraði spurningum Hauks Ingvarssonar, auk spurninga úr sal. Ljóðabók Hassan, sem heitir einfaldlega Yahya Hassan, vakti gífurlega mikil viðbrögð þegar hún kom út í Danmörku í fyrra. Ljóðin eru afar persónuleg þar sem hann lýsir heimilisofbeldi og aðstæðum sem hann bjó við í fátækrahverfi innflytjenda í Árósum, upptökuheimilum, afbrotum, fangelsisvist og stopulli menntun. Bókin er mest selda ljóðabók í Danmörku frá upphafi og hefur hún verið þýdd á nokkur tungumál til viðbótar við íslensku.

Eins og svo oft áður rúmaði fyrirlestrasalur Norræna hússins ekki viðburðinn. Það hefur oft gerst á Bókmenntahátíð og fleiri ókeypis uppákomum þar sem erfitt er að áætla fyrirfram hversu margir munu mæta. Því miður er sá löstur á þessu fagurlega hannaða húsi að salurinn er heldur lokaður og erfitt er að opna út þannig að þeir sem standa fyrir utan sjái það sem fram fer. Vissulega er hægt að opna inn í bókasafn en af einhverjum ástæðum var sviðið staðsett fyrir framan það op svo ekki var hægt að nýta þann möguleika. Það voru því örlög greinarhöfundar, og fleiri sem ekki mættu tímanlega, að sitja frammi í anddyri þaðan sem aðeins örfáir sáu sviðið.

Burtséð frá þessum skipulagsörðugleikum var þetta spennandi viðburður. Upplestur Hassan var kraftmikill, líkt og honum er lagið. Lesturinn var litbrigðalaus í tóni en þeim mun taktfastari og heyrðist greinilega að hann hefur reynslu af rappi. Hassan las ljóð sín á dönsku og óskaði einnig eftir að svara spurningum á dönsku, það var því engin enska töluð þetta kvöld. Meðalaldurinn í salnum var í hrópandi ósamræmi við aldur Hassan, sem er einungis nítján ára. Samkundan var heldur miðaldra enda er ljóst að danska er eldri Íslendingum þjálli en hinum yngri sem læra ensku fyrst og dönsku svo.

SAMSUNG CSCBjarki Karlsson, skáld og þýðandi bókarinnar, hóf dagskrá kvöldsins á að skýra frá þeim ljónum sem urðu á vegi hans við þýðinguna. Helst þótti honum sig skorta reynsluheim Hassans og aflaði hann því sér upplýsinga um málaflokka eins og barnaverndarmál, afbrot og löggæslu ásamt því að kynna sér menningu og tungutak múslimskra innflytjenda í Danmörku. Hann sagði að þrátt fyrir að tala ágætis dönsku eftir að hafa dvalið í Danmörku þá búi hann ekki yfir orðaforðanum sem sé að finna í ljóðunum. Hann grínaðist með að orðin sem hann lærði í Kristjaníu á sínum tíma höfðu ekki komið að notum í þýðingunni því búið væri að skipta þeim út. Hassan blandar saman háfleygri dönsku og innflytjendamáli sem kallast perkamál. Hann gerir einnig viljandi málvillur sem Bjarki sagði afar snúið að þýða. Bjarki ákvað að best væri að leita fanga í máli innflytjenda á Íslandi til þess að koma áhrifunum til skila án þess að það yrði kjánalegt. Hann sagði þó að honum hafi verið mikið í mun að láta þýðinguna fylgja upprunalega textanum eins nákvæmlega og mögulegt væri og nefndi sem dæmi að öll ljóðin byrji á sömu blaðsíðu og í frumgerðinni og að hann hafi haldið línu- og blaðsíðuskiptingum þótt umbrotið hafi boðið upp á annað.

Eins og áður sagði hefur ljóðabókin vakið mikil viðbrögð í Danmörku og má segja að viðtökurnar hafi einkennst af fanatík. Hægrisinnaðir öfgamenn hafa mistúlkað skálskap Hassans til þess að réttlæta fordóma sína gagnvart múslimum og róttækir íslamistar hafa reiðst honum fyrir að dirfast að gagnrýna múslima. Hann hefur fengið fjölda morðhótana og er sagður þurfa á vernd lífvarða að halda, sem þó voru ekki sýnilegir þetta kvöld í Norræna húsinu. Skáldið sagði að fjölmiðlar væru alls ekki saklausir af þeirri ólgu sem ríkir í danska þjóðfélaginu því þeir skapa gagnkvæma hræðslu meðal innflytjenda og Dana. Hassan vildi meina að fjölmiðlar ýttu ekki einungis undir ótta Dana á innflytjendum heldur einnig ótta innflytjenda á Dönum og danska kerfinu.

Öll ljóðin í bókinni eru skrifuð með hástöfum því Hassan vill láta rödd sína heyrast HÁTT. Við gagnrýnendur og þá sem hafa gert lítið úr skáldskap hans sagðist hann segja: „Haldið kjafti, svona upplifi ég þetta“ og sagði þesskonar yfirlýsingar vera frelsandi þó þær hafi bakað honum vandræði og óvinsældir. Hann sagði einnig fríformið sem hann notar vera frelsandi bragarhátt og að hann brúki rím einungis þegar honum hugnast og aldrei út heilt ljóð. Hassan hafði lag á að snúa léttilega út úr spurningunum sem honum bárust, enda orðinn þreyttur á misgáfulegum túlkunum almennings á skáldskapi sínum. Viðbrögð hans vöktu þó gjarnan mikla kátínu áhorfenda sem voru auðheyranlega ekki mótfallnir óvæntum svörum. Þegar hann var inntur eftir hvert markmiðið verksins væri sagði hann að það væri einfaldlega að skrifa ljóð – sem hann vonaði þó að veittu lesendum góða lestrarreynslu. Hann sagði sköpunarferlið og lestrarferlið bæði gefandi iðjur.

Aðspurður um lífið eftir útgáfu bókarinnar sagði hann einungis umhverfi sitt hafa breyst, ekki hann sjálfan. Hann játaði þó að síðan bókin kom út hafi hann einungis ort fjögur eða fimm ljóð. Sagði hann að það væri erfitt að finna umfjöllunarefni eftir að hafa sagt allt sem honum lá á hjarta. Aðdáendur Yahya Hassan verða því að öllum líkindum að bíða þolinmóðir á meðan hann aflar nýrrar lífsreynslu til þess að yrkja um. Eftir þetta ágæta kvöld í Norrænahúsinu ætti áhorfendum að vera ljóst að danska skáldið er hæfileikaríkt og beittur samfélagsrýnir sem mun vonandi finna sig knúinn til þess yrkja áfram um það sem honum brennur á hjarta.

 

Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone